Stjórnendur Vox feminae

Stefan Sand

Stefan Sand stundaði nám við Konunglegu tónlistarakademíuna í Kaupmannahöfn og lauk B.A. prófi í píanóleik árið 2017 en sneri sér í kjölfarið meira að tónsmíðum og hljómsveitarstjórn.

Árið 2019 kom hann til Íslands sem skiptinemi frá akademíunni en ákvað í kjölfarið að dvelja lengur hér á landi. Árið 2021 lauk hann Meistaranám í tónlist (New Audiences and Innovative Practices) frá LHÍ og hefur tekið þátt í Hljómsveitarakademíu Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir stjórn aðalhljómsveitarstjórans, Evu Ollikainen. Hann var einnig kórstjóri Háskólakórsins haustið 2022 þar sem Messa í C-Dúr eftir L.V. Beethoven var flutt ásamt Sinfoníuhljómsveit unga fólksins.

Önnur verk sem Stefan hefur stjórnað eru til dæmis Töfraflautan eftir W.A. Mozart í uppsetningu LHÍ, Fidelio eftir L.V. Beethoven og Prélude à l’après midi d’un faune eftir Claude Debussy með Sinfoníuhljómsveit Íslands.

Stefan mun klára Meistaranám í tónsmíðum frá LHÍ vorið 2023. Ásamt því vinnur hann að rannsóknarverkefni með Art Across (tónlistarhóp sem stofnaður var af Stefan og Thomas Hammel) þar sem kórtónlist og táknmál er samtvinnað. Fyrstu stig verkefnisins fengu góðar móttökur meðal heyrnalausra, heyrnarskertra og heyrandi. Stefan, auk Art Across hópsins, mun fara með verkefnið út fyrir landssteinana til norðurlandanna haustið 2023.

Stefan tók við stjórn kórsins í janúar 2023.

Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað

Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað hóf söngnám við Söngskólann í Reykjavík og lauk burtfararprófi þaðan árið 2009 undir handleiðslu Dóru Reyndal. Árið 2015 lauk hún mastersnámi frá Hollensku óperuakademíunni í Amsterdam og hún kemur reglulega fram sem einsöngvari í Hollandi sem og á Íslandi.

Meðal óperuhlutverka sem hún hefur sungið eru hlutverk greifynjunnar í Brúðkaupi Fígarós og Fiordiligi í Cosi fan tutte eftir W. A. Mozart, Echo í Ariadne auf Naxos eftir R. Strauss, Thérèse í Les mamelles de Tirésias eftir F. Poulenc og titilhlutverk Alcinu eftir G. F. Händel. Á tónleikum hefur Hrafnhildur m.a. sungið Vier letzte Lieder eftir R. Strauss, Mattheusarpassíu og Jólaóratoríuna eftir J. S. Bach, Petite Messe Solennelle eftir G. Rossini, Exsultate Jubilate eftir W. A. Mozart og Gloríu eftir F. Poulenc.

Hrafnhildur hefur komið fram á tónleikum og í óperusýningum mjög víða í Hollandi, meðal annars í Concertgebouw í Amsterdam, hjá Hollensku óperunni og Nationale Reisopera, auk tónlistarhátíða eins og Grachtenfestival og Uitmarkt. Meðal nýlegra verkefna Hrafnhildar hérlendis eru Vínartónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands, þátttaka í Óperudögum í Reykjavík, tónleikar með Barokkbandinu Brák, Kúnstpása hjá Íslensku Óperunni, tónleikaprógrammið Perlur íslenskra sönglaga í Hörpu og sumartónleikar í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar.

Hrafnhildur hefur sungið með ýmsum kórum, m.a. Mótettukór Hallgrímskirkju, Óperukórnum í Reykjavík og Schola Cantorum. Einnig söng hún með Hollenska útvarpskórnum í starfsnámsverkefni árið 2011, og kom fram á tónleikum með Fílharmóníunni í Rotterdam undir stjórn Jaap van Zweden. Hrafnhildur hefur verið meðlimur í ýmsum sönghópum; m.a. sönghópnum Evridís, sönghópnum Leó og Kvartettinum Arno.

Hrafnhildur hefur notið styrks frá Samfélagssjóði Valitor og hún hlaut tvisvar dvalarstyrk Selsins á Stokkalæk. Árið 2012 kom hún fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands sem sigurvegari keppninnar Ungir einleikarar og árið 2013 söng hún í úrslitum keppninnar Concours d’Excellence de l’U. P. M. C. F. í París. Hrafnhildur fékk listamannalaun Rannís árið 2018 til verkefnisins Free Play.

Hrafnhildur tók við stjórn vox feminae í janúar 2019 og stjórnaði til loka árs 2022.

Margrét Jóhanna Pálmadóttir

Margrét Jóhanna Pálmadóttir hóf tónlistarferil sinn í Hafnarfirði þar sem hún, auk píanónáms , söng með Kór Öldutúnsskóla og kirkjukór Hafnarfjarðarkirkju. Hún stundaði söngnám við Tónlistarskóla Kópavogs, Tónlistarháskólann í Vínarborg, Söngskólann í Reykjavík og á Ítalíu. Leiðbeinendur hennar voru meðal annarra Elísabet Erlingsdóttir, Svanhvít Egilsdóttir, Þuríður Pálsdóttir, Lina Pagliughi og Eugenia Ratti. Margrét kom fyrst fram sem einsöngvari 12 ára gömul m.a. í útvarpi og sjónvarpi. Hún söng með Þjóðleikhúskórnum í fjögur ár og tók á þeim tíma þátt í ýmsum uppfærslum með honum. Þá starfaði Margrét sem raddþjálfari Pólýfónkórsins og Söngsveitarinnar Fílharmoníu auk ýmissa annarra kóra og söng með sönghópnum Fjórar klassískar á árunum 1994-2000.

Margrét hefur unnið frumkvöðla- og hvatningarstarf í þágu stúlkna- og kvennakóra á Íslandi og hlaut fyrir það Riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu árið 2004. Þá sæmdi Karl Gustav XVI, konungur Svía, Margrét Riddarakrossi hinnar konunglegu Norðurstjörnu í opinberri heimsókn sinni í september 2004.

Margrét stofnaði Vox feminae 1993, sama ár og hún stofnaði Kvennakór Reykjavíkur, en einnig stofnaði hún og stjórnaði Kór Flensborgarskóla, Starfsmannakór SFR, Barnakór Grensáskirkju, Senjorítunum, Stúlknakór Reykjavíkur, Gospelsystrum, síðar Cantabile, og sönghópnum Aurora.

Árið 2000 stofnaði Margrét í félagi við aðra sönghúsið Domus Vox í Reykjavík sem sameinar undir einu þaki söngskóla og kórastarfsemi. Þar starfa í dag, undir stjórn Margrétar, kórarnir Vox feminae, Cantabile og Stúlknakór Reykjavíkur. Margrét er einnig skólastjóri söngskólans Domus Vox.

Margrét Pálmadóttir var stjórnandi Vox feminae frá stofnun kórsins en hætti störfum þann 1. janúar 2019.

Margrét Pálmadóttir