Dagana 13. – 20. júní heldur Vox feminae í tónleikaferð til Ítalíu. Þó að margar okkar hafi sótt Ítalíu heim með Margréti í gegnum árin, þá er þetta í fyrsta inn sem Vox feimnae fer í formlega tónleikaferð þangað. Þetta verður afar spennandi og skemmtileg ferð þar sem við fáum að syngja í glæsilegum kirkjum og tónleikasölum og munum heimsækja nokkra fegurstu staði Ítalíu. Stjórnandi í ferðinni er að sjálfsögðu Margrét J. Pálmadóttir og undirleikari er Antonía Hevesi.
Við munum reyna að setja fréttir inn á Facebook síðu okkar eins oft og við getum, en hér að neðan er gróf dagskrá ferðarinnar.
Mánudagur 13. júní Brottför til Ítalíu. Fyrstu 4 næturnar munum við gista í litlum og fallegum bæ sem heitir Salsomaggiore og er norðarlega á Ítalíu. Salsomaggiore er þekktur „spa“ bær en þar er að finna vatnslindir sem þykja mjög góðar fyrir líkama og sál.
Þriðjudagur 14. júní Á þriðjudagskvöldið heimsækjum við fallega kastalabæinn Castell ´Arquato þar sem við höldum tónleika í kirkjunni .
Miðvikudagur 15. júní Við höldum til Piacenza um miðjan dag en þar munum við halda tónleika í Collegium Universitá. Við höfum heyrt að borgarstjórinn ætli að heiðra okkur með komu sinni og einnig ætlar ítalska sjónvarpið að taka upp hluta tónleikanna. Við munum því passa vel uppá að varaliturinn verði á sínum stað!
Fimmtudagur 16. júní Í dag heimsækjum við Verona. Á leiðinni þangað ætlum við að snæða hádegisverð við hið fagra Gardavatn. Í Verona ætlum við að sjálfsögðu að skoða markverðustu staðina, eins og hringleikahúsið og svalir Júlíu, en megin tilgangurinn eru tónleikar í kirkjunni Chiesa di Santa Maria della Scala.
Föstudagur 17. júní Þann 17. Júní færum við okkur um set frá Salsomaggiore til sjálfra Feneyja þar sem við munum gista í 3 nætur! Við ætlum að njóta dagsins, sjá og upplifa Ítalíu á leiðinni.
Laugardagur 18. júní Í dag höfum við tækifæri til að kynnast Feneyjum, það er þangað til að tími er kominn á að hefja undirbúning fyrir tónleikana sem hefjast kl. 20 í Chiesa San Salvador (http://www.chiesasansalvador.it/eng/).
Sunnudagur 19. júní Í dag er kvenréttindadagurinn á Íslandi og því við hæfi að kvennakórinn Vox feminae geri innrás í eitt aðalvígi karlmanna, sjálfa kaþólsku kirkjuna! Við erum afar stoltar af því að fá tækifæri til að syngja við hádegismessu í Markúsarkirkjunni, einhverri frægustu kirkju heims.
Mánudagur 20. júní Þá er vikan á enda runnin og tími til kominn að kveðja Feneyjar og halda áleiðis heim. Við munum fljúga frá Bologna síðla kvölds og munum því eyða deginum í miðborg Bologna.