Fimmtudaginn 6. nóvember heldur Vox feminae tónleika í Fella- og Hólakirkju sem bera yfirskriftina In Pace Requiescam.
Vox feminae heldur árlega tónleika i kringum Allra sálna messu og að þessu sinni mun kórinn flytja trúarlega tónlist eftir mörg af þekktustu tónskáldum tónlistarsögunnar, svo sem Bach, Mozart, Schubert, Eccard og fleiri. Stærsta verk tónleikanna er flutningur á messu op. 187 eftir Josef Gabriel Rheinberger. Þessi messa var samin árið 1897 og er ein af þremur messum sem hann samdi fyrir kvenraddir og orgel.
Allra sálna messa er helguð minningu látinna. Efnisskrá tónleikanna ber þess merki og því er tilvalið að koma og hlýða á fagra tóna, kveikja á minningarkerti og minnast látinna ástvina.
Listrænn stjórnandi tónleikanna er Margrét Pálmadóttir, Guðný Einarsdóttir leikur á píanó og orgel og Victoria Tsarevskaia leikur á selló.
Tónleikarnir í Fella- og Hólakirkju hefjast kl. 20:30. Miðaverð er 2000 krónur og miðar fást í síma 863 4404, hjá kórfélögum og við innganginn.