Vox feminae tekur líkt og undanfarin ár, þátt í hinum árlegu aðventutónleikum kóra Domus Vox sem haldnir verða í Hallgrímskirkju miðvikudaginn 6. desember kl. 20.
Þar koma fram kórarnir Vox feminae, Aurora, Cantabile og Stúlknakór Reykjavíkur. Listrænn stjórnandi tónleikanna er Margrét Pálmadóttir en einnig munu þær Guðrún Árný Guðmundsdóttir og Sigríður Soffía Hafliðadóttir stjórna í einstökum verkum. Glæsilegur hópur tónlistarkvenna kemur fram með kórunum og ber þar fyrst að nefna Sigrúnu Pálmadóttur sópransöngkonu, en Sigrún er einmitt fyrrum félagi úr Vox feminae. Hljóðfæraleikinn annast þær Arnhildur Valgarðsdóttir á orgel, Elísabet Waage á hörpu, Hallfríður Ólafsdóttir á flautu og Ólöf Sesselja Óskarsdóttir á selló.
Hægt er að nálgast miða á tix.is en einnig er hægt að fá miða á sérstöku forsöluverði hjá kórfélögum og á skrifstofu Domus Vox. Fullt miðaverð er 5.000 krónur en aðeins 4.000 krónur í forsölu.