Laugardaginn 21. mars næstkomandi halda Kammersveitin ReykjavíkBarokk og þrír kvennakórar sem starfa undir stjórn Margrétar Pálmadóttur tónleika i Fella- og Hólakirkju sem bera yfirskriftina Nisi Dominus og Gloria. Tónleikarnir eru lokapunktur ánægjulegs samstarfs þessara tveggja hópa sem staðið hefur í vetur.

 

Á tónleikunum verða flutt tvö verk eftir ítalska tónskáldið Antonio Vivaldi.  Fyrra verkið, Nisi Dominus, er í flutningi kammerhópsins ReykjavíkBarokk og altsöngkonunnar Jóhönnu Halldórsdóttur. 

ReykjavíkBarokk er hópur hljóðfæraleikara sem deilir því sameiginlega áhugamáli að leika á upprunaleg hljóðfæri. Hópurinn var stofnaður haustið 2012 og hefur komið víða fram.

 

Kvennakórarnir Aurora, Cantabile og Vox feminae flytja svo síðara verkið, Gloriu, ásamt ReykjavíkBarokk. Verkið er eitt vinsælasta kórverk allra tíma og  var upprunalega samið fyrir blandaðan kór en verður hér flutt í útsetningu fyrir kvennakór. Tíu kórfélagar munu syngja einsöng með kórnum.  Í kvennakórunum eru um 100 konur frá 18 ára aldri, svo það verður fjölmennur hópur sem flytur þetta einstaklega fallega verk Vivaldis.

 

Tónleikarnir í Fella- og Hólakirkju hefjast kl. 20:30.  Miðaverð er 3.000 krónur og miðasala er hjá kórfélögum og í síma 511 3737 / 893 8060.