Vox feminae og Stúlknakór Reykjavíkur taka þátt í styrktartónleikum Caritas sem haldnir verða í Kristskirkju Landakoti sunnudaginn 23. nóvember. Tónleikarnir eru að þessu sinni til styrktar ungu fólki með alvarlega geðsjúkdóma. 

Á efnisskrá verða sannkallaðar perlur tónbókmenntanna sem falla vel að aðventunni m.a Veturinn úr árstíðunum fjórum í Buenos Aires eftir argentíska tangósnillinginn Astor Piazzolla þar sem hann flettar saman tangó, jazz og klassískri tónlist sem lýsa árstíðunum hinum meginn á hnettinum. Einleikari Sigrún Eðvaldsdóttir konsertmeistari, Kjartan Valdemarsson harmonika/hljómborð og Bryndís Halla Gylfadóttir selló. Haustið úr Árstíðunum fjórum eftir Vivaldi sem er yndislegur óður til náttúrunnar og einhver vinsælasta sígilda tónsmíð allra tíma. Einleikari Guðný Guðmundsdóttir konsertmeistari ásamt nemendum úr Tónlistarskólanum í Reykjavík og LHÍ. Þá má nefna Air svítu í G dúr eftir Bach einleikari Gunnar Kvaran selló og Antonia Hevesi orgel. Hið undurfagra Laudate Dominum eftir Mozart í meðförum Hallveigar Rúnarsdóttur einsöngvara ásamt strengjum, klarineti og Vox Feminae og stúlknakór Rvk undir stjórn Margrétar Pálmadóttur og bænina Preghiera eftir Marzagalia einsöngvari Kristján Jóhannsson, stengir, klarinet og kórar sem skapa sannkallaða hátíðarstemningu í upphafi aðventu.