Aðventutónleikar í Hallgrímskirkju miðvikudaginn 3. desember kl. 20:30.
Stjórnandi er Margrét J. Pálmadóttir.

Kvennakórarnir Vox feminae og Cantabile ásamt elstu stúlkum Stúlknakórs Reykjavíkur halda sameiginlega aðventutónleika í Hallgrímskirkju miðvikudaginn 3. desember næstkomandi.

Tónleikarnir eru helgaðir trúarlegri tónlist frá ýmsum tímum tileinkuð aðventu og jólum. Kórfélagar eru alls um 120 talsins og flytja öll verkin acapella eða án undirleiks, í minni hópum eða allar saman. Efnisskrá tónleikanna ber merki liðinna alda í mið-Evrópu þar sem samhljómur raddanna naut sín til fulls í endurómi hljómmikilla kirkna.
Margrét Pálmadóttir er stofnandi og stjórnandi kóranna þriggja og hafa þeir allir ferðast með henni bæði innan lands og utan.

Það verður hátíðleg stemming í Hallgrímskirkju á þessum tónleikum og því er tilvalið að koma og hlýða á gömul jólalög við kertaljós í hinum undurfagra hljómi og notalega umhverfi Hallgrímskirkju.

Tónleikarnir hefjast kl. 20:30. Miðasala er í Domus vox í síma 511 3737, hjá kórfélögum og á midi.is.