Vox feminae tekur þátt í styrktartónleikum Caritas sem haldnir verða sunnudaginn 22. nóvember næstkomandi. Sígild tónlist eins og hún gerist best verður í fyrirrúmi á tónleikunum þar sem einvalalið einsöngvara, einleikara og kóra koma fram.

Á efnisskrá er meðal annars:

Kristinn Sigmundsson  túlkar hina mögnuðu aríu Sarastros úr Töfraflautu Mozarts “In diesen heil’gen Hallen eða “sá sem ekki kann að fyrirgefa á ekki heima í mannlegu samfélagi”.  

Sigrún Hjálmtýsdóttir flytur aríuna  “Et incarnatus”  úr c-moll messu eftir Mozart, eina guðdómlegustu aríu hans.  Hann samdi verkið sem þakklætisvott til almættiisins efitir að unnusta hans Konstanze náði  heilsu eftir alvarleg veikindi. 

Kristján Jóhannsson syngur aríuna “Ingemisco” úr sálumessu Verdis, stórkostlegt listaverk mótað af sterkum andstæðum, þar sem bænin er þrungin  persónulegum tilfinningum.

Veturinn úr Árstíðunum fjórum  eftir Vivaldi er yndislegur óður til náttúrunnar, án efa eitt þekktasta verk tónskáldsins. Veturinn kemur með tilheyrandi kulda og norðanvindum og þá er ekki verra að hlýja sér við eldinn. Einleikari er Guðný Guðmundsdóttir konsertmeistari ásamt  nemendum úr Tónlistarskólanum í Reykjavík og LHÍ.

Gunnar Kvaran leikur meðal annars bænina Ave Maria  eftir Piazzolla.

Allir listamenn gefa vinnu sína og allur ágóði fer til að styrkja veikasta unga fólkið með alvarlega geðsjúkdóma sem njóta meðferðar á Laugarási-Endurhæfingu geðsviðs LSH Landspítala Háskólasjúkrahús.

 

Hægt er að kaupa miða á www.midi.is