Kvennakórinn Vox feminae heilsar vori miðvikudaginn 6. maí kl. 20 í Hafnarborg með flutningi tónlistar frá 16. og 17. öld undir yfirskriftinni „Þar sýprus grær“. Fluttir verða madrigalar og söngvar frá ýmsum löndum, þ.á.m. eftir Claudio Monteverdi, Passerau, Giovanni Gastoldi, John Dowland, Thomas Morley, Orlando Gibbons og O. Vecchi. 

Madrigalar eru fjölradda veraldleg sönglög og má rekja uppruna þeirra til tíma endurreisnarinnar á Ítalíu, er aðalsmenn tóku að ráða tónlistarmenn í þjónustu sína. Við ítalskar hirðir störfuðu þannig litlir sönghópar sem sungu madrigala fyrir húsbændur og gesti þeirra. Smám saman breiddist þetta tónlistarform út og náði miklum vinsældum og þá einkum á Englandi. Flest ljóðanna fjalla um ástina í sinni margbreytilegu mynd, gleði, unaði, angist, söknuði og kvöl.

 

Á tónleikunum koma fram ásamt Vox feminae, einsöngvarar úr röðum kórfélaga, Símon Ívarsson gítarleikari og Marion Herrera hörpuleikari. Listrænn stjórnandi tónleikanna er Margrét J. Pálmadóttir.

 

Miðasala hjá kórfélögum og í síma 863 4404