Sunnudaginn 3. apríl kl. 17:00 mun kvennakórinn Vox Feminae flytja franska kirkjutónlist frá 19. og 20. öld í Hallgrímskirkju. Stjórnandi kórsins, Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað mun syngja einsöng á tónleikunum og því verður Steinar Logi Helgason gestastjórnandi . Organisti er Björn Steinar Sólbergsson.

Hægt verður að kaupa miða við dyrnar og á tix.is. Miðaverð er 4000 kr. Á efnisskránni eru m.a. Messe Basse eftir Gabriel Fauré, Litanies a la vierge noir eftir Francis Poulenc sem er eitt áhrifamesta kórverk 20. aldarinnar, Panis angelicus eftir César Franck en nú er minnst 200 ára afmæli tónskáldsins auk verka eftir Lili Boulanger og Camille Saint-Saëns.

Tengill á Facebook viðburð.

Um flytjendur:

Kvennakórinn Vox feminae var stofnaður 1993 af Margréti J. Pálmadóttur. Stjórnandi kórsins er Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað og tók hún við kórnum árið 2019. Í kórnum eru 40 konur. Kórinn hefur haldið fjöldann allan af tónleikum innanlands sem erlendis og vann til silfurverðlauna í alþjóðlegri kórakeppni haldinni af Vatíkaninu í Róm. Trúarleg tónlist ásamt íslenskum þjóðlögum og sönglögum hefur einkennt lagaval kórsins en jafnframt hefur kórinn lagt rækt við samtímatónlist eftir íslensk tónskáld. Ætíð hefur verið lögð mikil áherslu á að efla og styrkja samningu verka fyrir kvennakóra og hefur kórinn átt gott samstarf við íslensk tónskáld um verk fyrir kórinn allt frá upphafi.

Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað, sópran, kemur reglulega fram á tónleikum og í óperusýningum en hún lauk Mastersnámi frá Hollensku Óperuakademíunni árið 2015, en áður nam hún við Söngskólann í Reykjavík og lauk þaðan burtfararprófi árið 2009.
Undanfarin ár hefur Hrafnhildur komið víða fram, meðal annars hjá Íslensku Óperunni, Sinfóníuhljómsveit Íslands, á hátíðum eins og Reykholtshátíð, Músík í Mývatnssveit og Óperudögum, á tónleikaröðunum Sumartónleikar í Sigurjónssafni, Sígildum sunnudögum og Tíbrá og ýmsum öðrum sjálfstæðum viðburðum.
Eftir að hafa lokið námi starfaði Hrafnhildur í Hollandi og kom meðal annars fram í sýningum hjá Hollensku þjóðaróperunni í Amsterdam, Nationale Reisopera og á fjölda sýninga DommelGraaf theater á tónleikaferðalagi. Einnig hefur hún komið fram á hátíðunum Grachtenfestival og Uitmarkt í Amsterdam, Operadagen Rotterdam og sem einsöngvari með ýmsum sinfóníuhljómsveitum og kórum m.a. í Amsterdam, Nijmegen, Haarlem, Leiden, Haag og Delft.
Meðal óperuhlutverka sem Hrafnhildur hefur farið með eru Echo í Ariadne auf Naxos eftir R. Strauss, Thérèse í Les Mamelles de Tirésias eftir F. Poulenc, Greifynjan í Brúðkaupi Fígarós eftir W. A. Mozart, Fiordiligi í Cosi fan tutte eftir Mozart, Alcina í samnefndri óperu eftir G. F. Händel og nú síðast Annina í La Traviata hjá Íslensku óperunni. Hún syngur einnig mjög fjölbreytt úrval tónlistar á tónleikum og ber þar helst að nefna Vier letzte Lieder eftir R. Strauss, Petite Messe Solennelle eftir G. Rossini, Exsultate Jubilate og Requiem eftir Mozart, Gloria eftir F. Poulenc, Der Hirt auf dem Felsen eftir F. Schubert, Stabat Mater eftir Pergolesi, og ýmis sönglög sem og óperu- og óperettutónlist.
Hrafnhildur hefur sótt fjölda alþjóðlegra námskeiða í söng víða um Evrópu, í Bandaríkjunum og Ísrael og hún hefur hlotið dvalarstyrk Selsins á Stokkalæk, styrk frá Menntamálaráðuneytinu til skipulagningar söngnámskeiðs, samfélagsstyrk Valitor og listamannalaun Rannís.

Steinar Logi lærði á píanó í Tónmenntaskóla Reykjavíkur, Nýja Tónlistarskólanum og í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hann hóf nám í Tónskóla Þjóðkirkjunnar árið 2010 og kláraði þar kirkjuorganistapróf og lauk síðar bakkalársgráðu úr Kirkjutónlistarbraut Listaháskóla íslands undir handleiðslu Björns Steinars Sólbergssonar. Steinar Logi stundaði meistaranám í ensemble conducting við Konunglegu tónlistarakademíuna í Kaupmannahöfn og útskrifaðist þaðan jólin 2020. Steinar hefur stjórnað fjölda kóra og starfað sem organisti, píanisti og stjórnandi á mörgum vígstöðum. Hann var tilnefndur ásamt Cantoque ensemble sem tónlistarhópur ársins í flokki Sígildrar-og samtímatónlistar. Steinar Logi tók við stöðu kórstjóra Hallgrímskirkju haustið 2021.

Björn Steinar Sólbergsson er organisti við Hallgrímskirkju í Reykjavík. Hann er einnig skólastjóri Tónskóla Þjóðkirkjunnar þar sem hann kennir jafnframt orgelleik. Björn Steinar stundaði tónlistarnám við Tónlistarskólann á Akranesi og í Tónskóla þjóðkirkjunnar í Reykjavík. Meðal kennara hans þar voru Haukur Guðlaugsson og Fríða Lárusdóttir. Framhaldsnám stundaði hann á Ítalíu hjá James E. Göettsche og í Frakklandi við Conservatoire National de Region de Rueil Malmaison hjá Susan Landale þar sem hann útskrifaðist með einleikarapróf í orgelleik (Prix de virtuosité) árið 1986. Hann starfaði sem organisti við Akureyrarkirkju í 20 ár þar sem hann vann að uppbyggingu tónlistarstarfs við kirkjuna.Björn Steinar hefur haldið fjölda einleikstónleika hér heima, á öllum Norðurlöndunum, í Evrópu og Norður-Ameríku. Hann hefur leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Sinfóníuhljómsveit Stavanger og The Cleveland Institute of Music Orchestra. Hann hefur hljóðritað fyrir útvarp og sjónvarp og á geislaplötur, m.a. öll orgelverk Páls Ísólfssonar hjá Skálholtsútgáfunni og orgelkonsert Jóns Leifs hjá útgáfufyrirtækinu BIS sem hlaut einróma lof gagnrýnenda.
Björn Steinar hlaut Menningarverðlaun DV 1999, Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2001 og var valinn bæjarlistamaður Akureyrar 2002. Björn Steinar hlaut starfslaun listamanna árin 1999 og 2015.