Vox feminae fagnar 20 ára starfsafmæli þann 22. nóvember næstkomandi með söngferð til Parísar dagana 21. – 25. nóvember.
Í þessari fyrstu söngferð Vox feminae til Parísar verður sérstök áhersla lögð á að kynna íslenska tónlist sem er Íslendingum sérlega hjartfólgin, eftir tónskáldin Þorkel Sigurbjörnsson, Sigvalda Kaldalóns, Hjálmar H. Ragnars og fleiri. Auk þess flytur kórinn trúarlega og veraldlega tónlist eftir erlend tónskáld, svo sem César Franck, Gabriel Fauré, Josef Rheinberger og fleiri.
Með í för verða þær Sigrún Hjálmtýsdóttir sópran og Guðný Einarsdóttir píanóleikari. Stjórnandi Vox feminae frá upphafi er Margrét J. Pálmadóttir.
Í París heldur kórinn tónleika í elstu kirkju Parísarborgar, Saint-Germain de Prés, fimmtudaginn 21. nóvember. Þá mun kórinn syngja tvisvar í Notre Dame, fyrst á hádegistónleikum föstudaginn 22. nóvember en einnig við hádegismessu kl. 12.45 sunnudaginn 24. november.
Miðvikudaginn 13. nóvember ætlar Vox feminae að halda kveðjutónleika í Grensáskirkju þar sem gestum gefst kostur á að hlýða á hluta þess efnis sem að kórinn hyggst flytja í París.
Tónleikarnir í Grensáskirkju hefjast kl. 20:30 og aðgangseyrir er 2.000 krónur. Miðasala er hjá kórfélögum og við innganginn.