Vox feminae tekur þátt í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands á þriðju sinfóníu Mahlers á Listahátíð 2014 þann 23. maí næstkomandi. Þriðja sinfónía Mahlers er eitt af meistaraverkum tónbókmenntanna og það er Vox feminae mikill heiður að fá tækifæri til að starfa með þeim stórkostlegu listamönnum sem þarna koma fram.

Osmo Vänskä var aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands árin 1993-96 og hefur síðan stjórnað mörgum fremstu hljómsveitum heimsins og hlotið margvísleg verðlaun fyrir störf sín, en til dæmis fékk hljóðritun sem hann stjórnaði Grammyverðlaunin nýverið.

Bandaríska mezzósópransöngkonan Jamie Barton hefur vakið mikla athygli fyrir safaríka rödd sína og innlifaða túlkun. Hún bar sigur úr býtum í söngkeppninni BBC Cardiff Singer of the World sumarið 2013 og varð fyrsta söngkonan í sögu keppninnar til að hljóta bæði verðlaun keppninnar. Hún hefur meðal annars sungið við Metropolitan-óperuna í New York og Bæversku ríkisóperuna í München, og haldið einsöngstónleika í Carnegie Hall við frábærar undirtektir.

Auk Vox feminae syngur Stúlknakór Reykjavíkur á tónleikunum, en kórhlutinn er skrifaður fyrir tvo kóra, barnakór og kvennakór. Stjórnandi beggja kóranna er Margrét J. Pálmadóttir.

Hægt er að kaupa miða á www.harpa.is