Kvennakórinn Vox feminae flytur íslensk sönglög og Vínarljóð í Salnum í Kópavogi laugardaginn 15. mars kl. 16.  Einsöngvari með kórnum er Sigrún Pálmadóttir sópran, Kristján Karl Bragason leikur á píanó og Hafdís Vigfúsdóttir á flautu. Listrænn stjórnandi er Margrét Jóhanna Pálmadóttir.

Á tónleikunum í Salnum mun Vox feminae flytja mörg af sínum uppáhaldslögum, íslensk sönglög í bland við alþekkt Vínarljóð eftir Brahms, Schubert og fleiri af þekktustu tónskáldum tónlistarsögunnar. Það er vorbragur yfir þessum tónleikum, enda daginn tekið að lengja og jafndægur á vori nálgast. Vox feminae fagnar því sérstaklega að fá til liðs við sig ungt tónlistarfólk, sem dvalið hefur langdvölum erlendis við nám og störf en hefur nú snúið heim og mun örugglega auðga íslenskt tónlistarlíf á komandi árum. Sigrún Pálmadóttir sópransöngkona var fastráðin við óperuhúsið í Bonn í tæpan áratug en hefur ekki verið áberandi á íslenskum tónleikasviðum. Það er því mikill fengur að fyrir tónleikagesti að heyra þessa frábæru söngkonu sem nú nýverið flutti búferlum til Íslands. Hafdís og Kristján Karl hafa leikið saman sem dúó um árabil. Þau sóttu sér framhaldmenntun í tónlist í Frakklandi, Hollandi og Noregi og eru nú búsett í Reykjavík þar sem þau starfa að list sinni og við kennslu.

Kvennakórinn Vox feminae fagnaði 20 ára starfsafmæli á síðasta ári og eru tónleikarnir í Salnum lokapunkturinn á hátíðarhöldum afmælisársins. Kórinn hefur ekki setið auðum höndum á afmælisárinu en það hófst á afmælistónleikum í Laugarneskirkju í apríl, sungið var á Austurvelli á 17. Júní, sungið á Kammertónleikum á Kirkjubæjarklaustri í águst og á Sálmafossi í Hallgrímskirkju á Menningarnótt. Í haust tóku kórfélagar svo þátt í uppfærslu Borgarleikhússins á Húsi Bernhörðu Alba, fóru í tónleikaferð til Parísar í nóvember þar sem meðal annars var sungið í Notre Dame, sungu á jólatónleikum Kristjáns Jóhannssonar í Hörpu og héldu aðventutónleika í Hallgrímskirkju í desember. Og fleiri spennandi verkefni bíða kórsins, því Vox feminae tekur þátt í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands á þriðju sinfóníu Mahlers á Listahátíð nú í vor. Til að styðja frekar hið öfluga starf Vox feminae, hlaut kórinn styrk frá Menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkur í desember síðastliðnum.

Tónleikarnir í Salnum hefjast kl. 16 og hægt er að kaupa miða á tónleikana hjá kórfélögum og á vef Salarins.

Verð aðgöngumiða er kr. 3.300,-